Margir fara í gegnum lífið með mjög gagnrýnar hugsanir í eigin garð og dæma sig hart ef eitthvað bregður útaf.
„Ég er ógeðsleg“, „Ég get þetta ekki“, Ég geri aldrei neitt rétt“, „Ég er feitur“, „Ég er svo heimsk“, „Það vill enginn heyra það sem ég hef að segja“, „Ég get ekki lært“, „Það hefur enginn áhuga á mér“, „Ég næ aldrei árangri“, „Ég er svo ljót“..
Svona setningar hljóma í hugum margra daginn út og daginn inn. Það á sem betur fer ekki við um alla og ekkert óeðlilegt að við séum stöku sinnum ósátt við það sem við gerum og upplifum heilbrigðan metnað og löngun til að gera okkar besta. Fjölmörgum þættu þessar setningar hér að ofan mjög öfgafullar og andstyggilegar, og hafa þar rétt fyrir sér, þær eru það. Það breytir því þó ekki að margir hafa gagnrýnt sig á neikvæðan hátt nánast svo lengi sem þeir muna eftir sér. Oftast nær er það án sérstakrar umhugsunar, það gerist ómeðvitað. Í sumum tilvikum kemur í ljós að hugsanir verða enn dekkri en þær sem hér hafa verið nefndar. Það eru meðal annars hugmyndir um að vera ekki þess virði að vera til og að hafa aldrei átt að fæðast.
Það er rökrétt að hugleiða hvernig á því stendur að við sjálf erum með huga sem talar á þennan hátt til okkar sjálfra. Ættum við ekki að vera okkar eigin bestu vinir? Væri ekki eðlilegra að hugur okkar sé í raun stöðugt að „klappa okkur upp“, gefa okkur jákvæð skilaboð og hvatningu? Auðvitað væri það rökréttara en þannig er því ekki alltaf farið. Það er heldur ekki svo einfalt að breyta hugsunum úr neikvæðum yfir í jákvæðar, fyrir þá sem hafa gagnrýnt sig á neikvæðan hátt í langan tíma, jafnvel áratugi.
Ástæða þess að hugafarið getur orðið svona neikvætt hefur að gera með þau skilaboð sem við fáum í uppvextinum ásamt því að við sjálf, sem börn og unglingar, þróum aðferðir til þess að takast á við lífið en höfum ekki heilbrigða fyrirmynd um hvernig það er gert. Þegar uppvöxtur okkar er á þann veg að við lærum ekki að við séum verðmæt, að við séum nóg og jafnmikils virði og aðrir, þá leitum við leiða út frá lágri sjálfsvirðingu til þess að takast á við lífið. Sumir hafa fengið bein skilaboð sem ýta undir þessar neikvæðu raddir, uppalendur hafa beinlínis sagt börnum sínum að þau séu vitlaus, geti ekkert og jafnvel að fæðing þeirra hafi í raun verið slys. Setningar eins og „þú varst slys“ og „þú áttir að fara í lakið“ eru dæmi um ummæli sem sitja föst í huga sumra og leiðir gjarna af sér það sem kallast tilveruskömm (e. existing shame bind). Það er þó ekki alltaf sem um bein neikvæð skilaboð hefur verið að ræða í uppvextinum. Ef einstaklingur upplifir að hann sé vanræktur, að hann skipti ekki máli og/eða sé beittur ofbeldi þá eru líkur á að viðkomandi fari að móta þessar neikvæðu skoðanir á sjáflum sér.
Þegar einstaklingur fær ekki fullnægjandi uppeldi sem bæði er nærandi og kærleiksríkt, leiðir það til þess að viðkomandi fer sjálfur að takast á við erfiðleika eða verkefni í lífinu á þann hátt sem hann telur rétt miðað við þær forsendur sem hann hefur. Í stað þess að hafa heilbrigðar hugmyndir um hvernig takast skuli á við verkefnin þá kemur upp í hugann neikvæð gagnrýni á eigin getu og verðmæti. Mjög algengt er að einstaklingar sem notast mikið við neikvæða gagnrýni eru einnig uppteknir af fortíðinni og það sem miður hefur farið.
Það að hafa ekki heilbrigða sýn á eigið verðmæti leiðir til lágrar sjálfsvirðingar sem hefur áhrif á öll okkar viðhorf og viðbrögð. Mikilvægt er að vinna að breytingu hugarfarsins þegar neikvæð gagnrýni er stór hluti af viðbrögðum okkar við erfiðleikum og lífinu í heild. Þrátt fyrir að það virðist ekki auðunnið verk, þá er það engu að síður hægt. Fjölmargar leiðir eru til þess að styrkja innra virði einstaklinga og um leið jákvæða uppbyggingu sem leiðir til jákvæðra hugsana. Það er eins og með fræið sem lagt er í moldina. Það virðist þurrt og líflaust þegar við sáum því. Það ber engu að síður ávöxt ef jarðvegurinn er tilbúinn fyrir það. Eins á við um okkur, ef við sáum jákvæðum og réttum hugsunum í huga okkar, mun ávöxturinn verða uppbyggilegur, jákvæður og góður.
Valdimar Þór Svavarssonr, áðgjafi
Comments