top of page
Search

Persónuleg stefnumótun

Updated: Nov 7, 2023

Einföld ráð fyrir þá sem vilja móta stefnuna í lífinu upp á eigin spítur

Í upphafi hvers árs fer af stað umræðan um áramótaheit og markmið fyrir komandi ár. Margir láta hugann reika, sjá fyrir sér hvað þeim langar að gera og upplifa vellíðan við tilhugsunina eina. Mjög gjarnan tengjast þessi markmið einhverju líkamlegu, að auka styrk, fækka kílóum, hlaupa lengra, klífa fjöll og ýmislegt í þeim dúr. Með tilhlökkun og von í brjósti er farið af stað, nú skal það takast, á mánudaginn ætla ég að byrja! Það eitt að setja sér markmið er jákvætt því ýmislegt bendir einfaldlega til þess að auknar líkur séu á því að markmið sem eru sett fram á markvissan hátt geti náðst. Það er þó ekki tóm gleði sem fylgir markmiðasetningunni og fjölmargir rekast á aðrar tilhugsanir og upplifanir þessu tengdu:

„En hvað með öll hin markmiðin og loforðin sem ég hef gefið mér en urðu að engu? Hvað með sársaukann og erfiðleikana sem fylgdu því að reyna að ná markmiði, sem varð svo aldrei að varanlegu ástandi? Hvað með álagið og streituna sem fylgir því að ég er að rembast við að halda heitunum? Hvað með neikvæðar hugsanir í eigin garð, niðurrif, samskiptaerfiðleika og þreytu sem fylgja gjarnan í látunum? Af hverju er ég stöðugt að reyna að breyta einhverju en tekst það ekki? Af hverju geri ég það sem ég vil ekki, og geri ekki það sem ég vil?“

Eitt sinn sagði mér góður maður sem hefur í gegnum tíðina verið þekktur fyrir að setja sér krefjandi markmið og farið öfganna á milli við að reyna að ná þeim, að nú væri svo komið að hans eina markmið væri að setja sér ekki markmið. Upplifun hans var sú að þrátt fyrir að sum markmið næðust en önnur ekki, þá væri álagið, öfgarnar, streitan og skapgerðarsveiflur sem fylgdu markmiðasetningunni, of dýrkeypt.


Það er af gríðarlega mörgu að taka þegar farið er að rýna í ástæður þess að í svo mörgum tilvikum eru markmiðin sem sett eru í upphafi árs, eitthvað sem heyrir sögunni til áður en langt um líður, jafnvel strax í lok janúar. Án þess að fara of djúpt í saumana á mannlegri hegðun og hugsun, þá er áhugavert að staldra við og skoða í það minnsta hvort hægt sé að nálgast málið á annan hátt, skoða hvaða atriði hafa sýnt sig að skila árangri og virkilega hugleiða hvað við leggjum til grundvallar þegar við stefnum að breytingum í okkar lífi. Hraði, áreiti og streita er einn helsti óvinur þess að við náum árangri. Við erum orðin vön því að flest allt gangi hratt fyrir sig, smellum á símann, sendum pósta eða hringjum og allt er við hendina. Þessi staða nútímans ýtir undir óþreyju og óþolinmæði. Við viljum sjá árangur strax, breyta því hvernig okkur líður strax og stökkvum gjarnan á tilboðin á skyndilausnum sem seldar eru um stræti og torg. Staðreyndin er hinsvegar sú að ef við viljum ná varanlegum árangri í lífinu, þá þurfum við að gefa okkur tíma fyrir það sem skiptir máli. Ef við stöldrum við og hugleiðum þá einstaklinga sem hafa náð árangri á hvaða sviði sem það er, þá sjáum við að fæstir þeirra gerðu það án þess að leggja mikið á sig, notuðu tíma í að öðlast reynslu og þekkingu, og héldu áfram þrátt fyrir að stundum hafi gengið illa.


Hér á eftir koma nokkrir gagnlegir punktar sem gott er að hugleiða til þess að auka líkurnar á því að við getum upplifað árangur og ánægju af því að vaxa og dafna í lífinu.

  1. Náðu þér í blað og penna, dagbók, stílabók eða hvað sem þú getur nýtt til að skrifa niður þínar hugleiðingar. Það er sjálfsagt að nota tölvuna en ég mæli þó með gömlu góðu dagbókinni.

  2. Í stað þess að hugsa um „markmið“, hugleiddu frekar orðið „stefna“. Skrifaðu niður svör við eftirfarandi spurningum:

  • Hvað er það sem veitir þér mesta gleði í lífinu? Af hverju?

  • Hvað skiptir þig mestu máli? Af hverju?

  • Hvernig finnst þér best að upplifa andlega vellíðan og frið? Af hverju skiptir það máli?

  • Hvert vilt þú stefna í lífinu? Af hverju?

  1. Hugleiddu nú út frá svörunum þínum, nákvæmlega HVAÐ gætir þú gert til þess að auka það sem þú hefur gaman af, einbeitt þér meira að því sem skiptir þig mestu máli, hvernig þú getur upplifað meira af andlegri vellíðan og hvað þú getur gert til þess að styðja betur við þá stefnu sem þú vilt taka í lífinu?

  2. Þegar þú skoðar atriðin sem þú hefur skrifað niður, er gott að svara því heiðarlega hvernig þér líður gagnvart þeim. Er þetta raunverulega það sem ég vil eða er ég að reyna að öðlast viðurkenningu annarra með því sem ég vil gera? Stendur einhver í veginum fyrir því að ég geti látið drauma mína verða að veruleika? Þarf ég að gera einhverjar breytingar á því hverja ég umgengst til þess að ná árangri? Vekja atriðin sem þú hefur skrifað niður tilhlökkun og gleði eða fylgir þeim einhver kvíði og streita? Ef svarið er það síðarnefnda, hvaða atriði getur þú tekið út eða breytt til þess að þau veki hjá þér tilhlökkun og gleði?

  3. Þegar þú ert sátt/ur við þau atriði sem þú hefur sett á blað og veist hvað það er sem þú vilt gera, þá er gott að skrifa niður HVERNIG þú ætlar að gera þessa hluti. Sem dæmi væri að ef eitt atriðanna er að sinna skapandi áhugamáli, þá þarftu að svara því hvernig ætlar þú að gera það? Það gæti verið að kaupa trönur, striga, málningu og pensla. Það gæti verið að bóka tíma hjá söngkennara. Það gæti verið að lesa bók með hugmyndum um hvernig best er að skrifa bók o.s.frv.

  4. Næst skaltu skrifa niður HVENÆR þú ætlar að gera þessi atriði sem þú ert búin/nn að skrifa niður. Því nákvæmari tímasetning, því betra. Það væri til dæmis betra að skrifa „Ég ætla að hafa samband við söngkennara á þriðjudaginn 23. janúar á milli klukkan 13 og 15“, frekar en að segjast ætla að athuga með söngkennslu í janúar. Annað dæmi væri, „Ég ætla að fara út í 20 mínútna göngutúra á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum klukkan 17:30“, frekar en að segjast ætla að hreyfa sig þrisvar í viku.

  5. Þegar þú hefur ákveðið hvenær þú ætlar að gera það sem þú vilt gera, þá er mikilvægt að skrá það niður í dagatal. Sumir nota dagbækur, aðrir nota dagatöl í síma og/eða tölvu. Hvor leiðin sem er farin er góð og gild, aðalatriðið er að búið sé að skrá niður þessi atriði, nákvæm og tímasett. Það eru margir kostir við að skrá niður hvenær við ætlum að framkvæma það sem við ætlum að gera. Einn þeirra er að halda okkur við efnið því það er auðvelt að láta aðra hluti taka athyglina frá stefnunni okkar. Annar kostur er sá að við getum litið til baka og séð hvaða áföngum við höfum náð, jafnvel þó að eitthvað gerist ekki akkúrat á þeim tíma sem við ákváðum í upphafi þá er mjög hvetjandi að sjá að hægt og rólega erum við að haka við hvert atriðið á fætur öðru.

  6. Skoðaðu aftur á heiðarlegan hátt hvort áætlun þín er raunhæf. Hefur þú tíma til að sinna því sem þú ert að setja í dagatalið? Skarast það á við aðra hluti sem þarf þá að færa til? Fellur þetta vel að daglegu lífi og öðrum skuldbindingum? Ertu að gefa þér eðlilegan tíma til að breyta lífinu þínu, eða á það að gerast strax? Ef þér sýnist þetta líta vel út, þá er það hið besta mál, ef svo er ekki og þú finnur streituna aukast bara við að horfa á dagatalið, þá skaltu endurskoða hvaða kröfur þú setur um tíma og magn.

  7. Það er mikilvægt að vera vakandi fyrir eigin hugsunum. Á einhverjum tímapunkti gætir þú allt í einu verið að hugsa að það skipti nú ekki svo miklu máli að sinna því sem þú varst búin/nn að ákveða að gera. Af hverju er hugurinn búinn að skipta um skoðun? Ef þú finnur á einum tímapunkti hvað það er sem skiptir þig mestu máli og langar mest til að gera, af hverju virðist hugurinn vera búinn að gleyma því á öðrum tímapunkti? Var það þá rangt í upphafi eða eru hugsanir þínar að draga þig frá stefnunni þinni, vinna gegn þér? Rannsóknir sýna fram á að strax í kjölfar þess að við finnum og hugleiðum hvað okkur finnst rétt að gera hverju sinni, fer hugurinn að leita í tilfinningar og velta því fyrir sér hvort hugleiðingin sé örugglega rétt. Það er eins og hann segi „Allt í lagi, þér fannst rétt áðan að þú ættir að taka upp íþróttatöskuna og fara á æfingu.. en ertu ekki full þreytt/ur? Verður það ekki ferlega sársaukafullt að vera að hamast eitthvað? Finnst þér þú líta nógu vel út í íþróttagallanum? Viltu ekki bara slaka á og fara kannski á morgun?“ Þessum hluta af hugsun okkar þurfum við að sjá við. Ég mæli með því að skoða fyrirlestur með Mel Robbins á YouTube sem heitir „The Secret to Self-Motivation | One of the Best Speeches Ever“. Þar er hægt að sjá hvaða niðurstöðu hún komst að varðandi „5 second rule“ eins og hún kallar það.

  8. Höfum hugfast að það má taka tíma að móta lífið út frá þeirri stefnu sem við viljum fylgja. Njótum ferðarinnar og ekki síst þeirra augnablika þar sem við þurfum að beita sjálfsaga. Við erum stöðugt í samkeppni á milli stundaránægju á kostnað langtíma árangurs. Hamingja og árangur til langs tíma byggir á mörgum réttum aðgerðum og ákvörðunum sem teknar eru, ein í einu. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það ekki skortur á upplýsingum sem veldur því að við náum ekki árangri. Upplýsingar eru eitthvað sem við getum nálgast á einfaldari hátt en nokkru sinni fyrr og nákvæmar upplýsingar um það hvernig er hægt að ná árangri á hinum og þessum sviðum eru aðgengilegar allan sólarhringinn á internetinu og hinum ýmsu miðlum. Þó svo að við hefðum alla þekkingu heims við fætur okkar, þá væri hún til lítils ef við nýtum hana ekki. Það sama á við um að móta stefnu og ná árangri í lífinu, ef við prófum okkur ekki áfram með það sem talið er virka og við finnum að er rétt að gera, þá er ólíklegt að við færumst nær markinu. Það er semsagt framkvæmdin sjálf sem er flöskuhálsinn, við þurfum að gera það sem við ætlum að gera. Það er gott að hafa kjörorð NIKE í huga af þessu tilefni því þau eru góð áminning um það sem mestu máli skiptir til þess að árangur náist – JUST DO IT!

Með bestu kveðju – Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

480 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page